October 11, 2016, 12:00 am
![Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.]()
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, sviðshöfundur, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 11. október, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Þetta er allt eins og klukknahljómur úr djúpinu. Í fyrirlestrinum fjallar hún um tilurð verka sinna og veitir innsýn í starfsaðferðir sínar sem sviðshöfundur og lýsir hugmyndafræðinni að baki þeim. Einnig mun hún ræða um sína áhrifavalda og það sem henni þykir nauðsynlegt í sköpun. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill
Ragnheiður Harpa lauk B.A. námi úr Listaháskóla Íslands 2011 og lagði stund á sambærilegt nám í University of Dartington 2010. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, leiksýninga og innsetninga bæði á Íslandi og erlendis. Af verkum hennar má nefna Söng kranans, sem tilnefnt var til Grímunnar 2016, Skínöldu, samstöðugjörning með ljósi fyrir UN Women, og Flugrákir:
og veröldin var sungin fram, lokaverk Listahátíðar 2014. Ragnheiður Harpa stundar nú framhaldsnám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað útvarpsleikrit, gefið út smásögur og vinnur nú að ljóðahandriti sem verður frumflutt á ljóðahátíð í Istanbúl í haust.
Fyrirlesturinn er þriðji í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.
↧
October 11, 2016, 12:05 am
![Frá grunnskólakynningunni 3. nóvember 2015.]()
Í dag, þriðjudaginn 11. október, verður árlegur kynningardagur fyrir grunnskólanemendur í VMA. Gert er ráð fyrir að tæplega fjögur hundruð nemendur úr 10. bekk grunnskóla frá Akureyri og nærsveitum heim í dag. Hver nemendahópur verður í um tvær klukkustundir í skólanum og á þeim tíma verður grunnskólanemendunum kynnt námið í skólanum, félagslíf o.fl. Margt forvitnilegt ber fyrir augu enda er VMA stór skóli með fjölbreytt námsframboð.
Grunnskólakynning er orðin fastur liður í starfi VMA á haustönn og er liður í því að kynna skólann fyrir væntanlegum framhaldsskólanemendum. Stærstur hluti grunnskólanemanna kemur frá Akureyri en einnig er von á nemendum úr grunnskólum í Eyjafirði, Suður- og Norður-Þingeyjarsýslu og sömuleiðis munu koma í heimsókn nemendur vestan Tröllaskaga.
Tekið verður á móti nemendahópunum á hálfrar klukkustundar fresti, fyrsti hópurinn kemur upp úr klukkan átta og síðan koma nemendahóparnir einn af öðrum framyfir hádegi. Í byrjun fá nemendur stutta kynningu á námsframboði skólans, síðan fara þeir í miðrými hans M01 þar sem allar námsbrautir setja upp kynningar og nemendur segja frá sínum brautum, svara spurningum grunnskólanema og verkefni verða til sýnis. Þá fá grunnskólanemendur kort af skólanum, þeir geta síðan gengið um hann og kynnt sér brautirnar. Að lokum safnast hver hópur saman í Gryfjunni þar sem félagslífið í skólanum verður kynnt af talsmönnum nemendafélagsins Þórdunu. Margt verður um að vera í skólanum á meðan á námskynningunum stendur, t.d. geta nemendur spreytt sig í suðuhermi á málmiðnaðarbraut, á rafiðnaðarbraut stendur þeim til boða að prófa að lóða og einnig verður opið inn í hina nýju Fab Lab stofu.
↧
↧
October 11, 2016, 5:17 am
![Hressar stelpur úr Naustaskóla í VMA í dag.]()
Það hefur verið heldur betur margt um manninn í VMA í dag enda árleg grunnskólakynning þar sem 10. bekkingar frá Akureyri og úr nærsveitum hafa sótt skólann heim og kynnt sér hvað hann hefur upp á að bjóða. Nemendur fengu almenna kynningu á skólanum og þeim gafst síðan kostur á að leita upplýsinga frá nemendum og kennurum úr hverri deild skólans. Nemendur kíktu inn í verknámsdeildirnar og fengu að spreyta sig á ýmsu, m.a. prófuðu þeir suðuhermi á málmiðnaðarbraut og prófuðu að lóða á rafiðnaðarbraut. Á matvælabraut var boðið upp á dýrindis pönnukökur sem nemendur í grunndeild matvælabarutar bökuðu.
Hér eru myndir sem voru teknar á grunnskólakynningunni í morgun.
↧
October 11, 2016, 11:54 pm
![Í suðuherminum á málmiðnaðarbraut.]()
Sannarlega var líf og fjör á göngum VMA í gær þegar um 400 grunnskólanemar sóttu skólann heim. Hilmar Friðjónsson, Kristín Haraldsdóttir, Birna Kristín Kristbjörnsdóttir og
Einar Örn Gíslason tóku fjölda mynda og hér birtast þær. Grunnskólanemum og kennurum eru sendar bestu þakkir fyrir komuna.
↧
October 12, 2016, 12:00 am
![Nemendur í VMA ganga að kjörborðinu á morgun.]()
Á morgun, fimmtudaginn 13. október, fara fram svokallaðar skuggakosningar (Shadow elections) í bróðurparti hérlendra framhaldsskóla, þar á meðal VMA, og eru þær liður í svokallaðri lýðræðisviku frá 10.-13. október. Nemendur greiða atkvæði eins og þeir væru að ganga að kjörborðinu í alþingiskosningunum laugardaginn 29. október nk. og velja á milli þeirra framboða í Norðausturkjördæmi sem hafa birt sína framboðslista.
Skuggakosningarnar eru haldnar að frumkvæði Landssambands æskulýðsfélaga og Sambands íslenskra framhaldsskóla og er ætlað að efla lýðræðisvitund framhaldsskólanema og hvetja þá til þess að nýta atkvæðisrétt sinn í alþingiskosningunum 29. október nk.
Staðreyndin er sú að kosningaþátttaka Íslendinga, eins og í nágrannalöndunum, hefur verið að minnka á síðustu árum. Einkum hefur kosningaþátttaka ungs fólks dvínað mjög á undanförnum árum. Það segir sína sögu að í sveitarstjórnarkosningunum 2014 nýttu einungis um 45% kosningabærra á aldrinum 20-24 ára rétt sinn til að kjósa.
Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa skuggakosningarnar um allt land og er þess vænst að góð þátttaka verði í þeim. Skipuð hefur verið landskjörstjórn sem, eins og nafnið bendir til, hefur yfirumsjón með kosningunum um allt land en síðan eru kjörstjórnir í hverjum skóla, skipaðar nemendum og kennurum. Í yfirkjörstjórn í VMA eru: Hinrik Þórhallsson, kennari, formaður og með honum eru nemendurnir Lóa Aðalheiður Kristinsdóttir, Kristófer Arnar Guðmundsson, Margrét Steinunn Benediktsdóttir og Berghildur Þóra Hermannsdóttir. Settur hefur verið upp vefurinn www.egkys.is þar sem ítarlegar upplýsingar eru um kosningarnar.
Kjörfundur verður í VMA kl. 09:00 á morgun, fimmtudag, til kl. 16:00 í Gryfjunni. Prentaðir hafa verið eins atkvæðisseðlar fyrir alla framhaldsskólana sem taka þátt í skuggakosningunum og að loknum kjörfundi í hverjum skóla verður atkvæðunum safnað saman á einn stað í Reykjavík og þau talin. Úrslit í skuggakosningunum verða síðan tilkynnt að kvöldi kjördags, 29. október, á vefnum www.egkys.is þegar kjörstöðum um land allt hefur verið lokað. Þá kemur í ljós hvort framhaldsskólanemar hafa kosið í takti við úrslit alþingiskosninganna eða ekki.
Rétt er að taka fram að skuggakosningarnar eru fyrir nemendur frá 16 ára aldri til 21 árs aldurs. Tvær kjördeildir verða á morgun í VMA, Kjördeild 1 verður fyrir 18-21 árs og Kjördeild 2 fyrir yngri en 18 ára.
Eins og sjá má hér er vandað mjög til skuggakosninganna og fylgja skal öllum settum reglum landskjörstjórnar. Það verður sannarlega gaman að sjá hvernig til tekst í þessum fyrstu skuggakosningum ungs fólks sem hafa farið fram hér á landi.
↧
↧
October 12, 2016, 11:09 am
![Skráning í lengri próftíma]()
Skráning í lengri próftíma
↧
October 13, 2016, 12:05 am
![Útskriftarsýningin á Glerártorgi tókst mjög vel.]()
Í desember nk. ljúka þrettán nemendur námi af hársnyrtibraut VMA tólf konur og einn karl eftir fimm anna nám. Liður í þessari lokaönn nemendanna var útskriftarsýning á Glerártorgi kl. 14 til 17 sl. laugardag þar sem nemendur klipptu og greiddu módel og síðan brugðu þátttakendur sér í betri fötin fyrir myndatökur.
Valdís Jósefsdóttir, ein nemendanna þrettán sem eru nú á síðustu önn í hársnyrtináminu, segir að tekin hafi verið ákvörðun um að hafa ekki tískusýningu í ár eins og mörg undanfarin ár en hafa þess í stað sýningu þar sem fólki gæfist tækifæri til þess að fylgjast með nemendum vinna með sín módel frá grunni. Hún segir að hverjum hinna þrettán nemenda hafi verið að gert að sýna dömu- og herraklippingu og sömuleiðis eina greiðslu. Til þess að unnt væri að setja upp sýninguna á Glerártorgi með þessum hætti var kennslustofa hársnyrtibrautar í VMA, þar með taldar vinnustöðvarnar, flutt úr skólanum og niður á Glerártorg.
Nemendurnir þrettán stóðu að öllum undirbúningi sýningarinnar með dyggri aðstoð kennara sinna, Hörpu Birgisdóttur og Hildar Salínu Ævarsdóttur.
Það var auðvitað mikil vinna að undirbúa sýninguna en hún var jafnframt mjög skemmtileg, segir Valdís Jósefsdóttir og nefnir að nemendur hafi fengið til liðs við sig fataverslanir á Glerártorgi sem létu þeim í té fatnað fyrir módelin þeirra. Þá hafi Reykjavík Warehouse ehf látið þá hafa hársnyrtivörur fyrir sýninguna endurgjaldslaust. Vildi Valdís koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra fyrirtækja sem lögðu þeim lið.
Vissulega er það mikil og góð reynsla fyrir okkur að undirbúa slíka sýningu frá grunni. En því fylgdi óneitanlega töluvert stress að klippa og greiða með svona marga að horfa á sig. Það var virkilega gaman að sjá hversu mikinn áhuga fólk sýndi þessari sýningu okkar og gaf sér góðan tíma til þess að fylgjast með, segir Valdís.
Þó svo að nemendur séu nú á lokasprettinum í VMA er ekki björninn unninn því þeir þurfa einnig að ljúka átján mánaða samningstíma á stofu. Sem stendur eru fjórir af þessum þrettán nemendum komnir á samning og að þeim tíma liðnum geta þeir farið í sveinspróf.
Valdís, sem er frá Húsavík, segir að hún sé mjög sátt við námið í VMA og vonandi geti hún starfað í þessu fagi í framtíðinni. Hennar draumur er að ljúka samningi, fara síðan í sveinspróf og opna hársnyrtistofu í sveit!
Hilmar Friðjónsson, kennari og áhugaljósmyndari, lét sitt ekki eftir liggja og myndaði útskriftarsýningu hársnyrtinemanna í gríð og erg. Hér eru myndaalbúm sem sýna hársnyrtinemanna að störfum á Glerártorgi:
Myndaalbúm 1
Myndalbúm 2
↧
October 13, 2016, 8:10 am
![Hæstánægðir grunnskólanemar með pönnukökurnar.]()
Á grunnskólakynningunni í VMA sl. þriðjudag spreyttu nemendur sig á ýmsum þrautum og fá þeir ýmislegt að launum.
Í fyrsta lagi gátu nemendur tekið þátt í svokölluðum vegabréfaleik. Nú hefur verið dregið úr vegabréfunum og eru eftirtaldir hinir heppnu og fá þeir sendan glaðning frá VMA: Gestur Einar Svalbarðsströnd, Sonja Lind Akureyri, Embla Dögg Akureyri, Katla María Þingeyjarsveit, Árdís Rún Húsavík, Gunnar Aðalgeir Akureyri, Mikael Matthíasson Akureyri, Ingunn Alda Akureyri, Ingunn Erla Akureyri og Emilía Kolka Akureyri.
Á rafiðnaðarbraut gátu nemendur spreytt sig í suðuhermi og fengu að launum stig. Egill Bjarni Gíslason úr Brekkuskóla á Akureyri skoraði flest stig og fær að launum 10 þúsund króna gjafabréf frá veitingahúsinu Greifanum., Pétur Smári Víðisson úr Þingeyjarskóla varð í öðru sæti og vann sér inn 7 þúsund króna gjafabréf frá Greifanum og Þórunn Jóna Héðinsdóttir úr Giljaskóla á Akureyri varð í þriðja sæti og vann sér inn 5 þúsund króna gjafabréf á Greifanum.
Og síðast en ekki síst datt Samúel Jóhann Andreasson Nyman í lukkupottinn en nafn hans var dregið úr innsendum lausnum á getraun sem rafiðnaðarbraut stóð fyrir. Að launum fékk Samúel spjaldtölvu sem Samtök rafverktaka og Rafiðnaðarsamband Ísland gaf.
↧
October 13, 2016, 9:30 am
![304 nemendur greiddu atkvæði í dag í VMA.]()
Í dag eru skuggakosningar í VMA eins og flestum öðrum framhaldsskólum landsins þar sem nemendur ganga að kjörborðinu og kjósa á milli þeirra framboða sem eru í kjöri í Alþingiskosningunum 29. október nk., að röskum hálfum mánuði liðnum. Í VMA kjósa nemendur á milli þeirra framboða sem eru í kjöri í Norðausturkjördæmi; Alþýðufylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Dögunar, Flokks fólksins, Framsóknarflokks, Íslensku þjóðfylkingarinnar, Pírata, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Vinstri grænna.
Á kjörskrá í VMA eru 981 og eru tvær kjördeildir, önnur fyrir yngri en 18 ára og hin fyrir 18-21 árs. Kjörfundur hófst kl. 09:00 í morgun og stendur til 16:00 í dag.
Atkvæði úr öllum framhaldsskólunum verða talin úr einum potti í Reykjavík og verða niðurstöður atkvæðagreiðslunnar gerðar opinberar eftir kl. 22 að kvöldi kjördags 29. október nk., þegar búið verður að loka öllum kjörstöðum í sjálfum alþingiskosningunum. Niðurstöður þessara kosninga í dag hafa ekkert gildi í úrslitum alþingiskosninganna í lok mánaðarins, fyrst og fremst eru þær liður í lýðræðisvakningu hjá ungu fólki og um leið eru kosningarnar liður í því að hvetja ungt fólk til þess að nýta sinn atkvæðisrétt í alþingiskosningunum 29. október nk.
↧
↧
October 13, 2016, 11:55 pm
![Þrívíddartæknin gefur sannarlega ýmsa möguleika.]()
Í dag, föstudaginn 14. október, kl. 13:00 verður opinn kynningarfundur (án endurgjalds) í M01 í VMA um svokallaða AR-tækni og nýja möguleika í þrívíddarprentun. Fundurinn er á vegum samstarfsverkefnis Háskólans á Akureyri og Polytechnic University í Búkarest í Rúmeníu (ARTE3DP) í samvinnu við VMA og FabLab á Akureyri (FabEy), sem verður staðsett í VMA.
Á fundinum munu Jón Þór Sigurðsson, þrívíddarhönnuður og verkefnisstjóri FabLab Ey og Albertína F. Elíasdóttir, stjórnarmaður í FabEy, fara yfir hugmyndafræðina sem að býr að baki FabLab, 3D hönnun og prentun. Síðan verða þrjú erindi á ensku um AR-tæknina og tengsl hennar við þrívíddarhönnun. Fyrirlesarar verða Catalin Amza, Dr. Diana Popescu og Dr. Theodora Chicioreanu.
Að loknu kaffihléi verður kynning á hinu nýju FabLab smiðju í VMA, sem verður opnuð áður en langt um líður. FabLab á Akureyri er samstarfsverkefni VMA, Nýsköpunarmiðstöðvar, SÍMEY og Akureyrarbæjar en ýmsir aðrir aðilar koma að rekstri og uppsetningu smiðjunnar.
↧
October 14, 2016, 12:00 am
![Leikarar í Litlu hryllingsbúðinni ásamt leikstjóra]()
Ekki verður annað sagt en að í mörg horn sé að líta í Samkomuhúsinu á Akureyri þessa dagana enda er Leikfélag VMA þar að æfa á fullu Litlu hryllingsbúðina sem verður frumsýnd að nákvæmlega viku liðinni, föstudaginn 21. október. Eins og alltaf á lokaspretti slíkrar vinnu eru óteljandi hlutir sem þarf að púsla saman til þess að hin eina og sannna heildarmynd náist. Auk stífra æfinga leikhópsins að undanförnu hefur verið unnið að búningahönnun, smíði leikmyndar, öflun leikmuna, vinnslu á tónlist, gerð leikskrár og svo mætti lengi telja. Allt verður þetta klárt að sléttri viku liðinni þegar leiktjöldin verða dregin frá í Samkomuhúsinu og afrakstur erfiðis undanfarinna vikna verður á borð borinn fyrir leikhúsgesti.
Uppsetning leikrits er jafnan mikil törn fyrir alla þá sem að sýningunni koma en gera má ráð fyrir að á milli 30 og 40 manns komi á einn eða annan hátt að uppfærslu Litlu hryllingsbúðarinnar, þar af eru 11 leikarar. Valið var í hlutverk um mánaðamótin ágúst-september og síðan hófust æfingar af fullum krafti. Lengstaf voru þær innan veggja skólans en sl. mánudag færði leikhópurinn sig inn í Samkomuhúsinu og þar er sýningin að mótast þessa dagana með öllu því sem til þarf.
Birna Pétursdóttir leikstjóri segir þetta fyrsta stóra leikritið sem hún leikstýri en hún er með BA-próf í leiklist og hefur fengist töluvert við að kenna leiklist. Birna er einnig áhorfendum sjónvarpsstöðvarinnar N4 að góðu kunn en þar hefur hún annast dagskrárgerð undanfarin ár. Birna segir þetta verkefni vitaskuld krefjandi en mjög skemmtilegt. Sýningin sé stór en henti ágætlega sem skólasýning. Hún segir bakgrunn leikaranna mismunandi, sumir séu að stíga sín fyrstu skref á leiksviðinu en aðrir hafi aflað sér nokkurrar reynslu. En það sem er mikilvægast af öllu er að þetta er frábær og samstilltur hópur sem finnst gaman að takast á við þetta verkefni og innan hópsins er rík vinátta, segir Birna. Hún segir að þegar svo skammt sé í frumsýningu aukist stressið eilítið, því svo ótal margt þurfi að púslast saman á lokasprettinum. En umfram allt er þessi vinna mjög skemmtilegt og ég verð að segja að þetta hefur gengið bara ljómandi vel.
Um tónlistina í sýningunni sér Kristján Edelstein og Hera Björk Þórhallsdóttir stýrir söngnum. Hera Björk verður norðan heiða á lokasprettinum í komandi viku. Nemendur í byggingadeild VMA hafa unnið að gerð leikmyndar fyrir sýninguna og Hallgrímur Ingólfsson kennari á listnámsbraut vinnur ásamt nemendum sínum að gerð hinnar ógnvekjandi blómaplöntu.
Birna leikstjóri kemur víða við. Auk þess að leikstýra og vinna þætti fyrir N4 vinnur hún nú að því að skrifa leikrit ásamt vandræðaskáldunum Vilhjálmi Bergmann Bragasyni og Sesselju Ólafsdóttur og verður þess ekki langt að bíða að það verði sett upp. Og nýverið stofnaði Birna ásamt manni sínum, Árna Þór Theodórssyni, fyrirtækið Flugu hugmyndahús, sem m.a. mun fást við gerð heimildamynda af ýmsum toga.
↧
October 17, 2016, 12:00 am
![Nýi sumarbústaðurinn að taka á sig mynd.]()
Liður í námi verðandi húsasmiða í VMA er að byggja sumarbústað frá grunni. Þetta gera nemendur á öðru ári, þeir byrja að byggja bústaðinn fljótlega eftir að skóli hefst að hausti og áður en vorannarpróf hefjast hafa þeir lokið verkinu. Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingadeildar VMA, segir að bygging sumarbústaðarins sé mjög mikilvægt og lærdómsríkt verkefni fyrir nemendur, í því felist lærdómur á við marga fyrirlestra í kennslustofu. Hér sé um að ræða raunhæft verkefni þar sem nemendur þurfa að takast á við margt af því sem þeir þurfi að leysa úr þegar út á vinnumarkaðinn kemur.
Fljótlega eftir að skólinn hófst í haust hófu ellefu nemendur á öðru ári að leggja grunn að sumarbústaðnum. Undirstöðugrindin var sett saman innan dyra og sömuleiðis útveggjagrindur og sperrur. Um miðja síðustu viku var síðan komið að því að taka grindina út og koma veggjunum á sinn stað ofan á henni. Allt féll þetta saman eins og flís við rass og því dagljóst að nemendur og kennarar höfðu sannarlega vandað til verka.
Sumarbústaðurinn er rétt um 50 fermetrar að grunnfleti og verður á flestan hátt samskonar og bústaður sem annars árs nemar í byggingadeild smíðuðu sl. vetur. Þó verður þakið á þessum bústað lengra og myndar skjól yfir verönd hússins.
En það eru ekki bara nemendur í byggingadeild sem fá að spreyta sig við byggingu sumarbústaðarins því einnig koma þar nemendur í rafiðnaðardeild við sögu og leggja rafmagn í bústaðinn síðar í vetur. Þetta verkefni er því lærdómsríkt og kærkomið fyrir fjölda nemenda í VMA. Og víst er að sá sem kemur til með að kaupa þennan bústað á næsta ári verður ekki svikinn af smíðinni. Hér er vandað til verka. Sá sem keypti bústaðinn sem VMA-nemendur byggðu sl. vetur setti hann niður á Kleifum í Ólafsfirði.
↧
October 18, 2016, 12:00 am
![Margrét Elísabet Ólafsdóttir.]()
Margrét Elísabet Ólafsdóttir, lektor í listgreinakennslu við Háskólann á Akureyri, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 18. október, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Áhrif nútímalistar á íslenska myndlist og myndlistarumræðu í upphafi 20 aldar. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Margrét Elísabet er doktor í list- og fagurfræði frá Parísarháskóla og leggur stund á rannsóknir á íslenskri myndlist. Hún hefur m.a. skoðað hvernig orðræða um myndlist á meginlandi Evrópu barst til Íslands í upphafi 20. aldar og hvaða áhrif hún hafði á íslenska myndlistarumræðu á tímum sjálfstæðisbaráttunnar. Margrét Elísabet hefur starfað sem sýningarstjóri, gagnrýnandi, háskólakennari og blaðamaður.
Fyrirlesturinn er fjórði í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.
↧
↧
October 12, 2016, 11:09 am
![Skráning í lengri próftíma]()
Skráning í lengri próftíma
↧
October 19, 2016, 12:00 am
![Úr Litlu hryllingsbúðinni. Myndir: Egill Bjarni]()
Næstkomandi föstudagskvöld, 21. október, kl. 20 frumsýnir Leikfélag VMA í Samkomuhúsinu á Akureyri leikritið Litlu hryllingsbúðina í leikstjórn Birnu Pétursdóttur. Um tónlistina í sýningunni sér Kristján Edelstein en um raddþjálfun sjá Hera Björk Þorvaldsdóttir og Friðrik Ómar Hjörleifsson. Ellefu leikarar koma fram í sýningunni en í það heila koma um fjörutíu manns að sýningunni á einn eða annan hátt. Kristján Blær Sigurðsson, formaður Þórdunu nemendafélags VMA, segir að hér sé um að ræða stærstu uppfærslu sem Leikfélag VMA hafi ráðist í og í fyrsta skipti sem félagið setur upp sýningu í Samkomuhúsinu á Akureyri. Því marki sýningin vissulega nokkur tímamót hjá Leikfélagi VMA.
Söngleikurinn Litla hryllingsbúðin er eftir Alan Menken (tónlist) og Howard Ashman (texti) og byggður á samnefndri kvikmynd frá árinu 1960. Mörg þekkt lög eru í sýningunni, t.d. Snögglega Baldur, Þú verður tannlæknir og Gemmér.
Litla hryllingsbúðin segir frá munaðarleysingjanum Baldri sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann vinnur í lítilli blómabúð í skuggahverfi borgarinnar, hjá Músnikk, sem tók Baldur í fóstur. Viðskiptin ganga fremur illa og blómabúðin er um það bil að leggja upp laupana. Í blómabúðinni vinnur einnig Auður, sæt ljóska sem Baldur er ástfanginn af. En hún á kærasta, leðurklæddan og ofbeldisfullan tannlækni, sem ferðast um á mótorhjóli og beitir Auði ofbeldi. Dag einn kaupir Baldur dularfulla plöntu, sem hann nefnir Auði II. Eftir því sem plantan vex og dafnar aukast viðskiptin stöðugt meira í blómabúðinni og Baldur verður sífellt vinsælli. Kvöld eitt uppgötvar hann að plantan getur talað og hún lofar honum frægð og frama, gulli og grænum skógi. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Matarvenjur plöntunnar eiga eftir að hafa skelfilegar afleiðingar.
Hér á landi hefur Litla hryllingsbúðin verið sett upp þrisvar sinnum í atvinnuleikhúsum. Einnig hefur Hryllingsbúðin verið sýnd af áhugamannaleikhópum víða um landið, s.s. í grunn- og framhaldsskólum.
Fyrsti atvinnuleikhópurinn sem sýndi Litlu hryllingsbúðina á Íslandi var Hitt leikhúsið. Sýnt var í Gamla bíó í Reykjavík og var frumsýnt í janúar 1985. Sýningum lauk í byrjun desember sama ár og voru þær þá orðnar fleiri en 100. Sýningargestir urðu u.þ.b. 50.000 og fram að þeim tíma hafði aðeins eitt leikhúsverk verið betur sótt á Íslandi: Fiðlarinn á þakinu. Í þessari sýningu léku m.a. Leifur Hauksson (útvarpsmaður á Rás 1) (Baldur), Edda Heiðrún Backmann (Auður) og Laddi (Ómar tannlæknir). Næst setti Leikfélag Reykjavíkur uppi Litlu hryllingsbúðina í Borgarleikhúsinu í júní 1999. Að þessu sinni var það Gísli Rúnar Jónsson sem þýddi og staðfærði verkið, en áfram var notast við söngtexta Megasar. Sýningar urðu samtals 66 og sýningargestir urðu 29.603. Þar fór Valur Freyr Einarsson með hlutverk Baldurs Snæs og Þórunn Lárusdóttir lék Auði. Stefán Karl Stefánsson fór með hlutverk tannlæknisins.
Þriðja íslenska atvinnuleiksýningin á Hryllingsbúðinni var sett upp af Leikfélagi Akureyrar, í samstarfi við Íslensku óperuna og var hún frumsýnd 24. mars 2006 í Samkomuhúsinu á Akureyri. Guðjón Davíð Karlsson fór með hlutverk Baldurs, Vigdís Hrefna Pálsdóttir lék Auði, og Jóhannes Haukur Jóhannesson túlkaði tannlækninn.
Sem fyrr segir verður frumsýning nk. föstudagskvöld og önnur sýning verður á laugardagskvöldið. Báðar hefjast þessar sýningar kl. 20. Þrjár sýningar verða síðan um aðra helgi, föstudagskvöldið 28. október kl. 20 og laugardagskvöldið 29. október verða tvær sýningar, kl. 19 og 22.
Verð aðgöngumiða er kr. 3.490. Miðasala er annars vegar á mak.is og hins vegar tix.is.
↧
October 20, 2016, 12:00 am
![Hilmar notar ipadinn við að útskýra dæmi.]()
Það er gömul saga og ný að stærðfræðin er mörgum nemendum ansi tormelt og þeir eiga erfitt með að komast yfir þann þröskuld. Eins og með önnur námsfög er afar einstaklingsbundið hvernig nemendum gengur að glíma við stærðfræðina en trúlega er hún þó það fag sem flestum reynist erfitt á einhvern tímann á námsferlinum. Hilmar Friðjónsson, kennari í VMA, nálgast stærðfræðikennsluna á eilítið annan hátt en gengur og gerist. Hann hefur verið að þróa stærðfræðikennslu sína með því að nota ipad sem hjálpargagn, bæði til að varpa skýringarmyndum upp á tjald og einnig í einstaklingskennslu. Hann kýs að hafa ekki fulla birtu í kennslustofunni þegar hann kennir stærðfræðina og þá er hann með lágstemda tónlist þegar nemendur eru að reikna dæmi. Hilmar segist eiga eftir að gera vísindalega úttekt á gildi þessarar kennsluaðferðar en sín tilfinning sé að hún virki mjög vel. Nemendur mæti mjög vel í tímana og meðtaki almennt vel það sem hann beri á borð fyrir þá.
Ég hef verið að þróa þetta í nokkur ár. Til að byrja með var ég með litla tússtöflu með töflupenna og nálgaðist maður á mann kennsluna með þeim hætti. Ipadinn kom síðan fram með töfluforrit sem bjóða upp á að gera það sama og tússtaflan. Það hins vegar tók töluverðan tíma að finna út úr því að tengja ipadinn við skjávarpann þannig að unnt yrði að varpa skjámyndinni á ipadinum upp á tjaldið. Ég hef notað gamlan ipad í tvö ár en í janúar á þessu ári fékk ég nýjan ipad ipad Pro - sem virkar bæði mjög vel með því að varpa upp á tjaldið en ekki síður við að kenna maður á mann. Þetta gefur m.a. þann möguleika að setja upp dæmi í mismunandi litum og það veitir nýja sýn margra á það sem maður er að reyna að útskýra. Við lifum í svo sjónrænum heimi að t.d. algebra eða rúmfræði verður að fá að lifna við og þetta er að mínu mati góð aðferð til þess. Ég nota aldrei hvítan bakgrunn í ipadinum, heldur svartan. Þeir sem eru lesblindir eiga í erfiðleikum með að lesa texta á hvítum bakgrunni. Svo virðist sem þeim gangi betur að lesa texta eða myndir á dökkum bakgrunni. Ég get ekki notað ipadinn í hvaða stofu sem er til þess að varpa skýringarmyndum og dæmum upp og það heftir mig að sjálfsögðu dálítið, en ég hef verið að þreifa mig áfram með þetta í M01. Hins vegar get ég notað ipadinn í hvaða stofu sem er við maður á mann kennslu. Að vera andspænis nemandanum með ipadinn gefur ýmsa möguleika. Ég get rétt nemandanum pennann og gefið honum færi á að skrifa á skjáinn sína útlistun á dæminu. Þá get ég bent honum á í hverju villan liggur, ef hún á annað borð er til staðar.
Varðandi lýsingu í kennslustofunni, þá er það þannig að of mikil birta virðist mér hækka spennustigið og það vil ég forðast í stærðfræðikennslu. Ég upplifi það svo að nemendum líði betur í mýkri birtu, en hún má þó að sjálfsögðu ekki vera það lítil að hún geri þeim nemendum erfitt fyrir sem ekki hafa fulla sjón.
Með því að kenna stærðfræðina með þessum hætti upplifi ég nemendur kvíðalitla eða jafnvel kvíðalausa og þeir mæta betur í tíma. Það að geta mætt kvíðalaust í stærðfræðitíma er mjög mikilvægt. Þeir nemendur sem vilja vinna saman að því að leysa dæmin geta gert það án þess að trufla aðra vegna þess að kennslustofan er stór. Og ég útiloka hávaða frá nemendunum með tónlist, sem ég hef á lágum nótum.
Ég tel að við getum nýtt okkur þessa tækni í hvaða námsgrein sem er en kennurum hefur almennt ekki gefist tækifæri til þess að nýta sér hana vegna þess að fjárhagslega leyfir skólakerfið ekki slíka kennslu í miklum mæli. Kennarar þurfa að ná leikni í að nota spjaldtölvu við kennsluna og það getur tekið tíma. Sjálfur er ég tæknilega sinnaður og ég sá tækifærin og vildi prófa þetta með minni eigin spjaldtölvu. Ég prófaði mig sjálfur áfram með þessa tækni og hafði að leiðarljósi nemandann, hvernig væri best að koma upplýsingum til hans á sem bestan hátt. Mér finnst ég sjá að þessi tækni við stærðfræðikennsluna geri það að verkum að þörf nemenda fyrir aukatíma í stærðfræði er ekki eins mikil og ella. Ég hef gert kennslumyndbönd til hliðar við kennsluna og sett inn á youtube og þangað geta nemendur sótt sér frekari útlistun á dæmum. Áreitið utan venjulegs kennslutíma er því minna með þessu móti, segir Hilmar Friðjónsson.
↧
October 21, 2016, 12:00 am
![Það má lofa ósviknu fjöri á fjölum Samkomuhússins.]()
Í kvöld er komið að stóru stundinni frumsýning verður á Litlu hryllingsbúðinni í uppfærslu Leikfélags VMA í Samkomuhúsinu kl. 20. Mikil vinna er að baki hjá leikhópnum og nú er allt klárt fyrir frumsýninguna í kvöld.
Jú, jú það er smá stress en þetta leggst þó bara vel í mig. Æfingarnar hafa vissulega verið strangar og álagið hefur verið mikið en við erum í höndum góðs leikstjóra og frábærra listrænna stjórnenda, segir Freysteinn Sverrisson, sem fer með hlutverk Músnikks í Litlu hryllingsbúðinni. Freysteinn er enginn nýgræðingur á leiksviðinu því hann hefur m.a. komið fram í uppfærslunni í Menningarhúsinu Hofi á Pílu Pínu og nýverið var hann á fjölum Samkomuhússins á Akureyri í leikritinu Listin að lifa, sem Sindri Snær Konráðsson, leikstýrði, en Sindri er einmitt í burðarhlutverkinu Baldri í Litlu hryllingsbúðinni. Ég þekkti ekki mikið til þessa verks áður en við fórum að æfa það, það eina sem ég þekkti til þess var tannlæknalagið. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir sýningunni og hef góða von um að það muni slá í gegn. Ég get í það minnsta sagt að við við getum lofað mjög góðri skemmtun, segir Freysteinn Sverrisson.
Fanney Edda Felixdóttir, sem leikur Auði í Litlu hryllingsbúðinni, segir að í sínu brjósti hafi mun frekar búið um sig spenna en stress fyrir frumsýningunni í kvöld, hún hlakki til þess að stíga á svið í kvöld og túlka Auði fyrir áhorfendur. Þetta er vissulega fyrsta stóra hlutverkið sem ég leik en ég var í minna hlutverki í Bjart með köflum í fyrra. Þetta hefur verið mjög gaman gengið mjög vel. Það verður vissulega gott að eignast líf á nýjan leik því leiklistin hefur átt hug minn allan síðustu vikur. Sennilega veit maður ekkert hvað maður á við tímann að gera, segir Fanney Edda. Hún segir að Auður sé margslungin persóna, hún sé afar brotin og hafi orðið fyrir bæði líkamlega og andlegu ofbeldi en hún sé jafnframt mjög góðhjörtuð. Æfingatíminn hefur verið mjög gefandi og skemmtilegur og ég hef lært margt, ekki síst hef ég lært á sjálfa mig og öðlast meira sjálfstraust. Nú geri ég hluti sem mig óraði ekki fyrir að ég ætti eftir að gera, sem er bara mjög skemmtilegt. Ég hef ekki síst lært að taka af skarið og trúa á sjálfa mig. Ég hef fulla trú á því að sýningin eigi eftir að ganga mjög vel, segir Fanney Edda Felixdóttir.
Önnur sýning verður annað kvöld, laugardagskvöld, kl. 20. Örfáir miðar eru eftir á frumsýninguna og sýninguna annað kvöld. Þrjár sýningar verða síðan um aðra helgi, föstudagskvöldið 28. október kl. 20 og laugardagskvöldið 29. október verða tvær sýningar, kl. 19 og 22.
Verð aðgöngumiða er kr. 3.490. Miðasala er annars vegar á mak.is og hins vegar tix.is.
↧
↧
October 24, 2016, 12:00 am
![Vetrarfrí í VMA í dag]()
Í dag, mánudaginn 24. október, er vetrarfrí í VMA. Í skóladagatali er dagurinn kallaður afmælisdagur landnámsmannsins Helga magra. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá í fyrramálið.
↧
October 25, 2016, 12:00 am
![Ásdís Sif Gunnarsdóttir.]()
Myndlistarkonan Ásdís Sif Gunnarsdóttir heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 25. október, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Innsetningar og útsetningar í rauntíma, úti og inni og í gegnum net. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Ásdís Sif útskrifaðist með BFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2000 og MA-gráðu frá University of California í Los Angeles 2004. Hún hefur vakið athygli fyrir vídeóinnsetningar, ljósmyndaverk og gjörninga. Auk þess að sýna á Íslandi hefur hún sýnt víða erlendis, tekið þátt í fjölda samsýninga og unnið vídeóverk á internetinu. Ásdís Sif opnar sýninguna Sýn í þokunni í Listasafninu laugardaginn 29. október nk.
Fyrirlesturinn í dag er í röð fyrirlestra síðdegis á þriðjudögum í vetur og er um að ræða samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.
↧
October 25, 2016, 3:45 am
NÁMSVAL FYRIR VORÖNN 2017
Hægt er að fá aðstoð við val í tölvustofu í þessum tímum hér fyrir neðan:
-Þriðjudagur 25.október kl.13:15-13:55 stofa B04-Þriðjudagur 25.október kl.14:40-16:10 stofa B02-Miðvikudagur 26.október kl.11:25-12:50 stofa ...
↧