November 9, 2016, 10:50 pm
![Hildur Friðriksdóttir á bókasafninu í VMA.]()
Hildur Friðriksdóttir hóf störf á bókasafninu í VMA í upphafi haustannar. Þó hún hafi ekki áður starfað í skólanum þekkir hún þó vel til hans enda hefur móðir hennar, Kristín S. Árnadóttir, kennt þar nánast frá því að skólinn var settur á stofn og maður hennar, Snorri Björnsson, hefur kennt þar undanfarin sjö ár.
Hildur getur ekki varist brosi þegar hún rifjar upp að hún hafi þegar hún var yngri hreint ekki ætlað sér að verða kennari. En fyrir þremur til fjórum árum hafi hún skipt um skoðun og því hafi hún ákveðið að afla sér kennararéttinda það gerði hún í Háskólanum á Akureyri. Hún kenndi menningarlæsi í æfingakennslu í Menntaskólanum á Akureyri og þar fékk hún kennarabakteríuna. Hins vegar liggja kennararastöður ekki á lausu í húmanískum fræðum, sem Hildur hefur menntað sig til, og því ákvað hún að sækja um stöðu á bókasafninu í VMA þegar hún var auglýst fyrr á árinu og fékk hana. Hún starfar sem sagt á bókasafninu í 75% starfi og segist alsæl með starfið. Það sé dásamlegt og hún vinni þar með frábærri samstarfskonu, Sirrý Sigríði Sigurðardóttur.
Hildur er Akureyringur, dóttir Kristínar S. Árrnadóttur íslenskukennara, sem fyrr segir, og Friðriks Vagns Guðjónssonar læknis. Hún lauk stúdentsprófi frá MA árið 1998 og fór þá strax um haustið í sjö mánaða bakpokaferðalag með tveimur vinkonum sínum til að byrja með voru þær allar þrjár í ferðalaginu en síðan hélt Hildur áfram ferðalaginu ein. Leiðin lá til Suðaustur-Asíu og síðan Ástralíu og Bandaríkjanna. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt í alla staði og ég sé sannarlega ekki eftir því að hafa farið í þetta ferðalag. Svo mikið er víst að ég mun hvetja dætur mínar til þess að sjá sig um í heiminum áður en þær fara í framhaldsnám þegar þar að kemur og stofna fjölskyldu, segir Hildur.
Haustið 1999 ákvað Hildur að fara í trúarbragðafræði í Svíþjóð en líkaði dvölin þar ytra ekki nægilega vel og kom aftur heim árið 2001. Fór þá í guðfræði í Háskóla Íslands og var þar önnur tvö ár og átti bara eftir að skrifa lokaritgerð. Sem raunar aldrei varð af. Hún eignaðist eldri dótturina Þuru árið 2003 og þá yngri, Steingerði 2005. Hildur fetaði síðan alveg nýja slóð, stofnaði eigið fyrirtæki í Hafnarstrætinu á Akureyri, þar sem hún seldi kaffi og te. Nokkuð sem hafði ekki verið gert á Akureyri. Hildur segir að þetta hafi verið mjög skemmtilegur tími og jafnframt lærdómsríkur. Fyrirtækið var í góðu samstarfi við Te & kaffi í Reykjavík en þar hafði Hildur unnið samhliða námi í HÍ. Þegar síðan Te & kaffi ákvað að setja upp kaffihorn í Pennanum Eymundsson keypti fyrirtækið reksturinn af Hildi og hún fylgdi með og kom hinum nýja rekstri í Pennanum Eymundsson af stað.
Eftir þetta var komið að enn einum nýjum kaflanum hjá Hildi. Hún skráði sig í nám í Háskólanum á Akureyri árið 2011 í nútímafræði og lauk BA-prófi árið 2013. Einnig tók hún kennararéttindin í HA, sem fyrr segir, og er hún á lokasprettinum í meistaraprófi í félagsvísindum við HA. Viðfangsefni hennar í lokaverkefninu til meistaraprófs, sem felst í ritun vísindagreina á bæði íslensku og ensku, er svokallað hrelliklám og skoðar hún það frá ýmsum hliðum.
Til hliðar við 75% starf á bókasafni VMA kennir Hildur stundakennslu í trúarbragðafræði við kennaradeild HA. Hún segir afar skemmtilegt að vera innan um allan þann fróðleik sem sé að fiinna á bókasafninu. Ég veit fátt betra en lyktina af gömlum bókum, segir Hildur og brosir. Og mér finnst sérstaklega gaman að umgangast nemendur og hjálpa þeim að afla sér fróðleiks á bókasafninu. Það er virkilega skemmtilegt að grúska og reyna að leysa úr þeim spurningum sem við fáum frá nemendum, segir Hldur og bætir við að margar og ólíkar námsbrautir í VMA geri það að verkum að fjölbreytnin í heimildavinnu nemenda sé mun meiri en í hreinum bóknámsskólum. Það geri starfið enn áhugaverðara og fjölbreyttara.
↧
November 10, 2016, 10:55 pm
![Verk Eyglóar Bjarkar á sýningunni í Gallerí Glugg.]()
Að undanförnu hafa verið til sýnis í gluggunum á ganginum í VMA skúlptúrar sem nemendur í áfanganum MYNL2SK05 hafa unnið. Skúlptúrarnir eru innblásnir af verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Kennarar í áfanganum eru Helga Jónasardóttir og Arna Valsdóttir. Tveir hópar unnu skúlptúrana og hefur fyrri hópurinn sýnt afrakstur sinnar vinnu síðustu tvær vikur en nú er komið að síðari hópnum.
↧
↧
November 10, 2016, 11:00 pm
![Harvey Bernard Milk.]()
Í tilefni af mannréttindaviku í VMA í síðustu viku, þar sem sjónum var beint að mannréttindum að Íslandi og út um allan heim í víðum skilningi, teiknuðu nemendur á fyrsta ári listnámsbrautar myndir af nokkrum þekktum andlitum sem á einn eða annan hátt hafa komið við sögu mannréttinda í heiminum á 19. og 20. öld. Fólkið sem nemendurnir teiknuðu eru Martin Luther King, Vigdís Finnbogadóttir, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Abraham Lincoln, Harvey Bernard Milk, Malala Yousafzai, Nadya Tolokonnikova, Nelson Madela og Aung San Suu Kyi.
↧
November 13, 2016, 11:00 pm
![Vandað til verka við raksturinn.]()
Fimmtu annar nemendur í hársnyrtideild VMA takast á við krefjandi hluti, enda eru þeir á lokasprettinum í námi sínu í skólanum - útskrifast í desember nk. Eitt af þeim námskeiðum sem nemendurnir fara í gegnum er rakstur - raunar eru tvö rakstrarnámskeið á námsskránni - nemendur eru nú að taka síðari námsáfangann í rakstri og liður í honum er að glíma við svokallaðan heilrakstur á módelum. Hér má sjá myndir sem voru teknar við það tækifæri í liðinni viku.
Ýmislegt er auðvitað hægt að læra af bókinni en verklegi hlutinn er ekki síður mikilvægur - fátt kemur í staðinn fyrir að munda skærin, hárgreiðuna eða rakhnífinn. Verklegi hlutinn er af ýmsum toga, með með því að fara höndum um módel eða á annan hátt. Á þessari önn býður hársnyrtideildin í þrígang upp á svokallaða stofudaga og eru tveir slíkir dagar að baki en sá þriðji er nk. fimmtudag, 17. nóvember frá kl. 11:30 til 15:30. Boðið verður upp á klippingu, litun, permanent eða rakstur - allt gegn vægu verði. Öllum áhugasömum er bent á að setja sig í samband við nemendur í hársnyrtideildinni á C-gangi skólans til að fá frekari upplýsingar og/eða panta sér tíma.
↧
November 14, 2016, 11:00 pm
![Margrét Elísabet Ólafsdóttir.]()
Margrét Elísabet Ólafsdóttir, lektor í listgreinakennslu við Háskólann á Akureyri, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 15. nóvember, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Jón Stefánsson og listaskóli Matisse. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og öllum heimill.
Margrét Elísabet er doktor í list- og fagurfræði frá Parísarháskóla og leggur stund á rannsóknir á íslenskri myndlist. Hún hefur starfað sem sýningarstjóri, gagnrýnandi, háskólakennari og blaðamaður. Í fyrirlestri sínum fjallar hún um dvöl Jóns Stefánssonar í listaskóla Matisse í París og þau áhrif sem Jón hafði í kjölfarið á íslenska myndlistarmenn.
Jón Stefánsson er einn af frumherjum íslenskrar myndlistar. Hann hafði mikil áhrif á aðra myndlistarmenn sem voru honum samtíða, s.s. Ásgrím Jónsson, Kristínu Jónsdóttur og Þorvald Skúlason. Jón hóf myndlistarnám í Kaupmannahöfn en fór síðan til Parísar og sótti listaskóla Henri Matisse. Matisse stofnaði skólann árið 1908 og starfrækti hann í þrjú ár. Ætlun hans var að miðla hugmyndum sínum um málaralistina til nemenda sem flestir komu frá Norðurlöndunum og Þýskalandi. Þremur árum síðar komst hann að þeirri niðurstöðu að þau áform hefðu mistekist.
Aðgangur er ókeypis á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir. Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra síðdegis á þriðjudögum í vetur og er um að ræða samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.
↧
↧
November 15, 2016, 11:00 pm
![Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín.]()
Nýverið voru þau Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín og Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir valin í afrekshóp Keilusambands Íslands og er þetta í fyrsta skipti sem Akureyri eignast afreksíþróttamenn í keilu. Ólafur Þór, sem er nemandi á fyrsta ári í byggingadeild VMA, og Guðbjörg Harpa æfa og keppa fyrir keiludeild Íþróttafélagsins Þórs.
Það er ekki langt síðan byrjað var að æfa keilu á Akureyri, eðlilega var það ekki hægt fyrr en keiluhöll var risin í bænum. Fyrst og fremst er keila almenningsíþrótt sem hentar öllum en með stofnun keiludeildar Þórs hefur hópur keilara stundað reglulegar æfingar í íþróttinni. Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín er einn þeirra og hann hefur náð frábærum árangri í íþróttinni á stuttum tíma. Þetta byrjaði allt saman fyrir þremur árum, árið 2013. Þá sáu hann og bekkjarfélagar hans í Oddeyrarskóla auglýsingu um kynningu á keilu. Átta bekkjarfélagar mættu til þess að kynna sér málið og þremur árum síðar eru fjórir af þessum átta sem æfa íþróttina reglulega.
Ólafi Þór hefur farið mikið fram á síðustu mánuðum, sem nú hefur skilað sér í því að hann hefur verið valinn í afrekshóp Keilusambandsins. Það þýðir að auk reglubundinna æfinga eru sérstakar æfingar fyrir afrekshópinn undir handleiðslu unglingalandsliðsþjálfarans Guðmundar Sigurðssonar, sem býr á Akranesi. Aðstaða til æfinga og keppni í keilu er einungis í Reykjavík, Akureyri og Akranesi. Markmiðið með afrekshóp Keilusambandsins er að hlúa vel að börnum og unglingum sem þykja skara fram úr og að innan tíu ára hafi Ísland eignast áhuga- og/eða atvinnukeilara í fremstu röð. Ólafur Þór segir að sitt markmið í íþróttinni sé alveg skýrt, hann stefni á að verða í fremstu röð.
Þrátt fyrir ungan aldur og að hafa ekki stundað íþróttina nema í um þrjú ár hefur hann nú þegar náð hæsta stigaskori sem hefur náðst á Akureyri. Það gerðist á æfingu sl. vor þegar hann náði 299 stigum af 300 mögulegum. Til þess að ná 300 stigum í einum leik þarf tólf fellur þ.e. að fella allar keilurnar í einu skoti en Ólafur Þór náði ellefu fellum og aðeins ein keila var uppistandandi.
Þar sem keiludeild Þórs er ung að árum eru liðsmenn hennar ennþá í neðri deildum í Íslandsmótinu í keilu. Ólafur Þór er einn þriggja liðsmanna í liði Þórs í Íslandsmótinu allir þrír eru þeir úr gamla bekkjarkjarnanum í Oddeyrarskóla og allir eru þeir nemendur í VMA. Þeir þremenningar eru í liði sem keppir í þriðju deild Íslandsmótsins en Ólafur segir að sjálfsögðu takmarkið að komast upp um deild í ár. Hvort það takist, verði tíminn að leiða í ljós. Hér er mynd af þeim þremenningum en með Ólafi í liðinu er Birkir Örn Erlingsson (lengst til vinstri á myndinni) og Rúnar Ingi Grétarsson. Báðir eru þeir Birkir Örn og Rúnar Ingi á fyrsta ári í grunndeild rafiðnaðar í VMA.
En hver telur Ólafur Þór að sé meginástæðan fyrir velgengni hans í keilunni? Þær eru margar, segir hann. Hann hafi mikla ánægju af því að stunda íþróttina og leggi rækt við hana. En stærsta skýringin sé þó trúlega sú, segir Ólafur Þór, að hann hafi þróað afar sérstakan skotstíl, sem fáir hafi tileinkað sér. Hann sé sá eini á Akureyri sem skjóti á þennan hátt en nokkrir aðrir syðra geri það líka. Án þess að fara út í flóknar útskýringar á skottækninni er munurinn á skotum Ólafs Þórs og annarra sú að hann notar ekki þumalinn þegar hann skýtur kúlunni eftir brautinni. Þess í stað má segja að hann fari með lófann undir kúluna og kasti henni þannig. Með þessu móti segist hann ná mun meiri snúningi á kúluna en ella. Eiginlega getur enginn þjálfað mig hér á Akureyri í þessu því ég er sá eini hér sem skýt svona. Ég ligg yfir myndböndum og læri af þeim, það má segja að Youtube sé minn þjálfari, segir hann og brosir.
Sem fyrr segir hóf Ólafur Þór nám í byggingadeild VMA sl. haust. Hann segir enga sérstaka ástæðu fyrir því að hann valdi að fara í smíðarnar, en mig langaði fyrst og fremst í eitthvert verklegt nám. Og hann sér ekki eftir því, honum líkar afar vel í byggingadeildinni og á fastlega von á því að hann sé kominn þar á rétta hillu.
↧
November 16, 2016, 3:30 am
![Hægt er að stunda fjarnám í VMA hvar sem er!]()
Umsókn um dagskóla og fjarnám vorönn 2017
↧
November 16, 2016, 11:00 pm
![Það snjóaði duglega á Akureyri á degi ísl. tungu.]()
Í tilefni af degi íslenskrar tungu, sem haldinn var hátíðlegur um allt land í gær, var íslenska fánanum flaggað við VMA, eins og vera ber, en frá árinu 2008 hefur þessi dagur verið opinber fánadagur og skal flaggað við opinberar stofnanir í landinu. Auk þess eru landsmenn hvattir til þess að draga íslenska fánann að hún á degi íslenskrar tungu.
Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur undangengin tuttugu ár á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, en hann fæddist 16. nóvember 1807 og lést 1845, aðeins 38 ára gamall. Ríkisstjórn Íslands ákvað haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu og hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við tunguna. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu hennar og gildi fyrir þjóðarvitund og menningu landsins.
Á degi íslenskrar tungu í gær afhenti mennta- og menningarmálaráðherra í athöfn í Hörpu í Reykjavík árlegar viðurkeningar til fólks sem þykir hafa með starfi sínu hlúð að tungunni og haldið henni á lofti. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut .....
Við sama tækifæri opnaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, nýja vefgátt Árnastofnunar malid.is
Á tímum netvæðingar, snjallsíma og tækni af ýmsum toga þykir meiri ástæða en nokkru sinni fyrr til að vekja athygli og áhuga ungs fólks á íslensku máli, enda verða áhrif t.d. ensku æ sterkari með hverju árinu.
↧
November 17, 2016, 10:55 pm
![Sherihan hæstánægð í snjónum.]()
Sherihan Essam Farouk Azmy SadeSherihan Essam Farouk Azmy Sade
↧
↧
November 17, 2016, 11:00 pm
![Nóg að gera á stofudegi í hársnyrtideild.]()
Það var heldur betur líf og fjör í hársnyrtideild VMA í gær þegar efnt var til þriðja og síðasta svokallaða stofudags á önninni, en þá bjóða fimmtu annar nemendur, þeir sem eru að útskrifast í desember nk., fólki upp á klippingu, litun, permanent eða rakstur - gegn vægu verði. Stofudagurinn hófst hálf tólf og stóð til fjögur og var hann fullbókaður á öllum vinnustöðvum. Nemendur gengu ákveðið til verks, enda að kalla fram alla þá þekkingu sem þeir hafa tileinkað sér í náminu í VMA.
Þrettán nemendur útskrifast úr hársnyrtideild í desember og hefur útskriftarhópurinn aldrei verið jafn stór. Harpa Birgisdóttir kennari sagði ánægjulegt að sjá svo stóran og öflugan útskriftarhóp ganga fumlaust og ákveðið til verka. Stofudagurinn væri "mini"-útgáfa af þeirri miklu törn sem jafnan er á hársnyrtistofum í aðdraganda jólahátíðar og því gaman að sjá að nemendur hafi tileinkað sér góð vinnubrögð og séu augljóslega tilbúnir fyrir vinnumarkaðinn.
↧
November 20, 2016, 11:00 pm
![Karitas Fríða Bárðardóttir við vefstólinn.]()
Vefnaðurinn kom mér skemmtilega á óvart en honum hafði ég ekki kynnst áður. Ég er mjög sátt við að hafa farið þessa leið, þetta er að öllu leyti í senn skemmtilegt og áhugavert, segir Vopnfirðingurinn Karitas Fríða Bárðardóttir, sem stundar nám á textílsviði listnámsbrautar og stefnir að því að ljúka stúdentsprófi af þeirri braut í vor.
Þegar litið var inn í rými listnámsbrautar þar sem vefstólarnir eru sat Karitas Fríða við vefstólinn og var að vefa teppi. Hún segist oft nýta dauðar stundir til vefnaðar, enda sé hann afar róandi.
Að loknum tíunda bekk á Vopnafirði lá leið Karitasar Fríðu á listnámsbraut VMA. Ekkert annað kom til greina, enda hafði hún hugsað sér að verða fatahönnuður alveg síðan hún var lítil stelpa. Og hún varð ekki fyrir vonbrigðum, námið uppfyllti hennar væntingar. Hún segist hafa komið í skólann árið 2012 og stundað námið þá í hálft annað ár. Hafi þá ákveðið að gera hlé á náminu og farið í janúar 2014 sem aupair í hálft ár til Noregs og síðan um haustið, sama ár, í eitt ár til Svíþjóðar. Engu að síður hætti hún ekki alveg námi því hún tók bókleg fög í fjarnámi VMA. Og eftir dvölina í Svíþjóð hélt hún áfram sem frá var horfið í VMA.
Að loknu náminu í VMA, sem Karitas stefnir á að ljúka næsta vor á þremur og hálfu ári, segir hún óráðið hvað taki við. Hún geri þó ekki ráð fyrir að fara strax í skóla, hún hafi áhuga á því að ferðast svolítið og nýta tímann um leið til þess að finna út hvað hana vilji læra.
Karitas Fríða býr á Akureyri með kærasta sínum, Reyðfirðingnum Margeiri Páli Björgvinssyni, sem einnig stundar nám í VMA, er í vélstjórn og blikksmíði. Síðasta sumar störfuðu þau í álveri Fjarðaáls á Reyðarfirði og segir Karitas að þau muni verða eystra um jólin og taka þá nokkrar vaktir í álverinu. Það er mjög gott að vinna í álverinu, þetta er skemmtileg vinna og góðir vinnufélagar, segir Karitas Fríða.
↧
November 21, 2016, 11:00 pm
![Gústav Geir Bollason myndlistarmaður.]()
Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 22. nóvember, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Myndlist í brjáluðu húsi. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis og öllum heimill.
Í fyrirlestri sínum fjallar Gústaf Geir um sögu, tilgang, áfanga og markmið Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Hann segir m.a. frá ólíkum verkefnum og hugmyndinni að baki þeim.
Gústav Geir Bollason útskrifaðist frá MHÍ 1989, var gestanemi við Magyar Képzőművészeti Egyetem í Búdapest veturinn 1989-90 og útskrifaðist með Diplôme National Supérieur d'Expression Plastique frá École Nationale Supérieure d'Arts de Paris Cergy 1995. Hann starfar við myndlist (teikningar, kvikmyndir og rýmisverk),verkefna- og sýningarstjórnun og kennslu auk þess að hafa umsjón með Verksmiðjunni á Hjalteyri.
Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra síðdegis á þriðjudögum í vetur og er um að ræða samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Fyrirlesturinn í dag er sá næstsíðasti á þessu ári en síðasti fyrirlesturinn verður að viku liðinni.
↧
November 22, 2016, 7:32 am
Nemendum sem hafa erfiða próftöflu gefst tækifæri til að fresta einu prófi til sjúkraprófa. Ekki er þó hægt að fresta verklegum prófum.
Þessi frestun hefur engin áhrif á rétt nemandans til sjúkraprófa í öðrum greinum, enda séu þá veikindi sönnuð með læknisvottorði.
Kostnaður við þessi aukapróf er kr. 1000 kr. og greiðist við skráningu.
↧
↧
November 22, 2016, 11:00 pm
![Bergur Unnsteinn (t.v.) og Fannar Logi.]()
Tveir nemendur í VMA, Fannar Logi Jóhannesson og Bergur Unnsteinn Unnsteinsson, gerðu það heldur betur gott á Íslandsmóti Íþróttafélags fatlaðra í sundi í Ásvallalaug í Hafnarfirði um liðna helgi. Þeir gerðu sér lítið fyrir og komu heim með fjóra Íslandsmeistaratitla og fjölda silfur- og bronsverðlauna. Þjálfari þeirra er Kristjana Pálsdóttir, sem auk þess að þjálfa hjá Sundfélaginu Óðni er stuðningsfulltrúi í VMA.
Um var að ræða Íslandsmót Íþróttafélags fatlaðra í 25 metra laug. Þeir félagarnir kepptu í sínum fötlunarflokki og einnig fullorðins- og opnum flokki.
Fannar Logi Jóhannesson varð Íslandsmeistari í 100 og 50 m bringusundi og annar í 50, 100 og 200 m skriðsundi, 50 m baksundi og 200 m fjórsundi og fjórði í 100 m fjórsundi.
Bergur Unnsteinn Unnsteinsson varð Íslandsmeistari í 50 m skriðsundi og 50 m baksundi, í öðru sæti í 100 og 50 m bringusundi og 50 m baksundi og þriðji í 100 m fjórsundi og 100 m skriðsundi.
Kristjana Pálsdóttir, þjálfari þeirra félaga, er hæstánægð með árangurinn og segir hann mikla hvatningu fyrir þá og einnig sig sem þjálfara. Strákarnir hafa æft mjög vel og lagt mikið á sig. Þeir eru afar efnilegir og eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér í sundinu. Ég veit að þeir eiga ennþá töluvert mikið inni og þetta er okkur öllum hvatning að leggja ennþá meira á okkur við æfingarnar, segir Kristjana, sem hóf störf sem stuðningsfulltrúi við VMA sl. og segist afar ánægð með starfið og starfsandann í skólanum. Hún lærði sálfræði í Háskóla Íslands og tók þar einnig kennslufræði og lýðheilusfræði til meistaraprófs. Auk vinnunnar í VMA þjálfar hún sund hjá Sundfélaginu Óðni, þar á meðal þá Fannar Loga og Berg Unnstein. Hún þekkir vel til Sundfélagsins Óðins því undir merkjum þess keppti hún á yngri árum, en fjórtán ár eru síðan hún lagði keppnissundbolnum. Hún segir afar skemmtilegt að endurnýja kynnin við sundið og Óðin og sérstaklega skemmtilegt sé að starfa aftur með Ragnheiði Runólfsdóttur, sem er yfirþjálfari hjá Óðni, en hún þjálfaði Kristjönu um tíma hér á árum áður.
↧
November 23, 2016, 10:55 pm
![Útskriftarnemendurnir níu í Ketilhúsinu.]()
Næstkomandi laugardag, 26. nóvember, kl. 15 verður opnuð í Ketilhúsinu á Akureyri útskritarsýning níu útskriftarnemenda listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Sjö af þessum níu nemendum, sem allir útskrifast frá VMA í desember nk., eru á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar en tveir eru á myndlistarlínu.
Það er orðinn fastur liður að útskritarnemar á listnáms- og hönnunarbraut sýni nokkur verka sinna í lok skólagöngunnar og er þetta annað árið í röð sem sýningin er sett upp í samstarfi við Listasafnið á Akureyri. Við undirbúning slíkra sýninga velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér nýja miðla eða dýpka skilning sinn á þeim sem þeir hafa áður kynnst. Að baki verkunum liggur hugmynda- og rannsóknarvinna og leita nemendur víða fanga í eigin sköpunarferli, allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd og þeim miðli sem unnið er með. Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samtali og samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem frumkvæði, hugmyndaauðgi og öguð vinnubrögð eru lögð til grundvallar.
Á sýningunni gefur m.a. að líta ljósmyndir, málverk, fatahönnun, grafíkverk og teikningar. Nemendurnir sem sýna eru: Alma Hrund Hafrúnardóttir Árþóra Ingibjörg Álfgeirsdóttir, Björg Ingadóttir, Fjölnir Freyr Sævarsson, Inga Líf Ingimarsdóttir, Júlía Ósk Júlíusdóttir, Regína Jóhannesdóttir, Sunneva Birgisdóttir og Veronika Arnardóttir.
Sýningin verður opin til 11. desember, þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýninguna og aðrar sýningar undir hatti Listasafnsins á Akureyri er á fimmtudögum kl. 12.15. Aðgangur að sýningunni er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.
↧
November 24, 2016, 11:00 pm
![Gestirnir af Hlíð með kennurum og skólastjórnendum]()
VMA fékk sannarlega ánægjulega heimsókn í gær þegar sex eldri borgarar frá Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri ásamt tveimur starfskonum komu í heimsókn og skoðuðu skólann. Af þessum sex eru tveir heimilismenn á Hlíð en fjórir nýta sér svokallaða dagþjálfun þar.
Til fjölda ára hefur VMA átt í mjög góðu samstarfi við Dvalarheimilið Hlíð, t.d. hafa sjúkraliðanemar á hverjum vetri verið þar í starfsþjálfun. Á þessari önn hafði Íris Ragnarsdóttir kennari á brautarbrú VMA frumkvæði að því að koma á heimsóknum nemendahópa á brautarbrú á Hlíð og kynnast því merka starfi sem þar fer fram. Þessar heimsóknir hafa tekist með miklum ágætum og er ástæða til þess að þakka sérstaklega þær móttökur sem krakkarnir hafa fengið í þessum heimsóknum á Hlíð.
Og í gærmorgun var síðan komið að því að taka á móti góðum gestum af Hlíð. Að sjálfsögðu var byrjað á því að bjóða gestunum upp á rjúkandi morgunkaffi og bakkelsi sem nemendur á brautarbrú höfðu bakað undir stjórn Ara Hallgrímssonar á matvælabraut. Og síðan var gestunum kynnt starfsemi á nokkrum verknámsbrautum; rafiðnaðarbraut, byggingadeild, hársnyrtibraut, málmiðnaðarbraut og bifvélavirkjun. Einnig kynntu gestirnir sér fjölbreytta vinnu nemenda á listnámsbraut.
Hinum góðu gestum af Hlíð er þökkuð heimsóknin og vonandi er hún aðeins byrjunin á frekara samstarfi af þessum toga í framtíðinni, enda skemmtilegur liður í því að brúa kynslóðabilið.
Hér eru myndir sem voru teknar í gær þegar gestirnir fóru um vistarverur skólans.
↧
November 27, 2016, 11:00 pm
![Patrik Ingi (t.v.) og Árni Hreiðar Kristinssynir.]()
Bræðurnir Árni Hreiðar og Patrik Ingi Kristinssynir frá Höfða 2 í Grýtubakkahreppi hafa ekki ósvipuð áhugamál. Þeir eru báðir tæknisinnaðir og því lá beint við að þeir færu í slíkt nám. Og málin æxluðust á þann veg að þeir hafa gengið sömu slóð í náminu í VMA, fóru báðir í raf- og rafeindavirkjun.
Árni Hreiðar, sem er 21 árs gamall, hóf nám sitt í VMA árið 2011 og hefur nú þegar lokið námstíma sínum í rafeindavirkjun og stefnir að því að útskrifast sem rafvirki og stúdent í desember nk. Til þess að verða sveinn í báðum greinum þarf hann að ljúka samningstímanum og strax eftir áramót fer hann að vinna hjá Rafeyri tekur þar samningstímann í rafvirkjun. Þar vann hann sl. sumar og hefur einnig unnið með skólanum.k
Patrik Ingi, sem er nítján ára gamall, er eðlilega kominn skemmra á veg í náminu. Hann hóf nám sitt í VMA árið 2013 og er eins og bróðir hans að taka bæði rafvirkjun og rafeindavirkjun. Sem stendur er hann í rafeindavirkjuninni en á eftir eina önn af náminu í rafvirkjun.
Þeir bræður eru sammála um að tilviljun ein hafi ráðið því að þeir enduðu í sama náminu í VMA. Árna Hreiðari hafi litist vel á að prófa þetta nám á sínum tíma, enda áhugamaður um tækni og tölvur. Og sama segir Patrik að hafi verið uppi á teningnum hjá sér. Hann hafi ekki haft áhuga á að fara í bóknám eftir grunnskóla, hafi verið búinn að fá nóg af því, og því valið staðið um grunndeild rafiðna eða byggingadeildina í VMA. Rafmagnið hafi orðið ofan á, að einhverju leyti vegna þess að bróðir hans hafi gefið því góð meðmæli. Og einnig hafi haft sitt að segja að hann sé tæknilega sinnaður eins og bróðir hans. Patrik stefnir einnig að því að taka stúdentspróf, enda sé mikilvægt að hafa það í handraðanum ef vilji sé síðar til frekara náms.
Þeir bræður eru sammála um að námið sé gott og sérstaklega hafi rafeindavirkjunin opnað fyrir þeim áður óþekkta leyndardóma tækniheimsins.
Þeir bræður eiga eina yngri systur, Hönnu Valdísi, sem hneigist frekar til bóknáms. Hún stundar nú nám á fyrsta ári í MA, er þar í svokölluðum krílabekk.
↧
↧
November 28, 2016, 11:00 pm
![Lárus H. List, form. Myndlistarfélagsins.]()
Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 29. nóvember, kl. 17:00-17:40 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins er Myndlist á Akureyri: Horft um öxl og fram á veginn. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Í fyrirlestrinum fjallar Lárus um Myndlistarfélagið, fortíð þess og framtíð, hvað hefur áunnist síðan félagið var stofnað og verkefnin sem framundan eru. Einnig mun hann tala um Listagilið í sögulegu samhengi og mikilvægi þess fyrir listalíf Akureyrar. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlesturinn er í röð fyrirlestra síðdegis á þriðjudögum í vetur og er um að ræða samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri. Fyrirlesturinn í dag er sá síðasti á þessu ári en þráðurinn verður tekinn á nýju ári og þá verða fleiri spennandi fyrirlestrar.
↧
November 29, 2016, 11:00 pm
![Nemendur skoðuðu leiðir til að nýta grænmeti betur]()
Nemendur í markaðsfræði í VMA hafa að undanförnu unnið verkefni þar sem matarsóun var meginviðfangsefnið og var sjónum beint að því sérstaklega hvernig þessum málum er háttað varðandi grænmeti. Nemendur kynntu verkefni sín í gær og voru niðurstöður þeirra sláandi.
Hér á Íslandi hefur umhverfisvitund aukist verulega á undanförnum árum, sem að hluta til kann að tengjast vaxandi áherslu á flokkun sorps. Þá verður fólki það betur ljóst en áður hversu miklum mat er hent. Þetta á við um allan mat - þar á meðal grænmeti.
Grænmetisframleiðendum er vandi á höndum með svokallaða annars flokks framleiðslu sína, því margir neytendur vilja ekki sjá hana þó svo að varan sé ekkert síðri en fyrsta flokks grænmeti. Munurinn á fyrsta og annars flokks grænmeti liggur í því að í annan flokk fer útlitsgallað grænmeti og þar með fæst mun minna fyrir það en ella. Grænmetisframleiðendur geta oft og tíðum ekki komið þessari vöru í verð, jafnvel þótt hún kosti helming eða minna en fyrsta flokks grænmeti og því neyðast þeir oft til þess að henda svo og svo miklu af úrvals grænmeti.
Þessi staðreynd var meginstefið í verkefnavinnu nemenda í markaðsfræði í VMA undir stjórn Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur kennara. Afrakstur vinnu sinnar kynntu nemendur í gær og til þeirrar kynningar var boðið Önnu Sigríði Pétursdóttur, grænmetisframleiðanda og ferðaþjónustubónda á Brúnulaug í Eyjafjarðarsveit. Hafði hún orð á því við nemendur að lokinni kynningu þeirra að áhugavert hefði verið að sjá þeirra vinnu og margvíslegar hugmyndir þeirra til þess að kynna annars flokks grænmeti fyrir neytendum í því skyni að koma í veg fyrir að þessi vara þyrfti að enda á haugunum.
Meðal annars kom fram í kynningunni að um fimmtungi grænmetis sem framleitt er hér á landi sé hent vegna útlitsgalla. Þetta þurfi framleiðendur að gera vegna þess að verslanir taki ekki við útlitsgölluðu grænmeti þó svo að gæði þess sé fullkomlega til jafns við fyrsta flokks grænmeti, sem ekki hafi útlitsgalla.
Nemendur kynntu ýmsar hugmyndir sínar - út frá markaðsfræðinni - hvernig mætti kynna almenningi útlitsgallað grænmeti og ýta undir sölu þess. Þegar upp væri staðið væri þetta liður í því að draga úr matarsóun. Meðal þess sem var nefnt var að höfða sérstaklega til leikskóla- og grunnskólabarna og nokkur samhljómur var í því að nýta samfélagsmiðla til kynninga - t.d. snapchat, instagram og facebook.
Anna Sigríður Pétursdóttir upplýsti að í Brúnalaug væru framleidd á milli 23 og 25 tonn af grænmeti á ári. Paprikur eru framleiddar bróðurpart úr ári og agúrkur á sumrin. Það segir sína sögu um hversu stórt hagsmunamál það er fyrir framleiðendur í Brúnalaug og aðra grænmetisframleiðendur að fá eitthvað fyrir útlitsgallað grænmeti að fyrir síðasta mánuð var rafmagnsreikningurinn í Brúnalaug um 700 þúsund krónur á mánuði. Grænmetisframleiðslan er afar orkufrek grein enda þarf sterk ljós á grænmetið árið um kring.
Verkefni nemenda í markaðsfræðinni sýndu fram á að hér er verk að vinna og þar eiga allir hlut að máli - grænmetisframleiðendur, verslanir, veitingastaðir og heimili.
↧
November 30, 2016, 11:00 pm
![Það verður margt að sjá á opnu húsi í kvöld.]()
Fastur liður í starfi listnáms- og hönnunarbrautar í lok hverrar annar er opið hús þar sem nemendur brautarinnar sýna afrakstur vinnu sinnar á önninni. Eins og gefur að skilja er mörg áhugaverð verk og hluti að sjá enda starf brautarinnar afar fjölbreytt. Sýnd verða myndverk af ýmsum toga - t.d. akrílverk, skúlptúrar og margt fleira og í textílhlutanum gefur að líta vefnað, fatnað og margt fleira.
Opna húsið verður í kvöld, fimmtudag, kl. 20 til 21:30 og er ástæða til að undirstrika að allir eru hjartanlega velkomnir. Enginn verður svikinn af því að skoða fjölbreytta og skemmtilega vinnu nemenda.
Einnig er vert að benda á að nú stendur yfir í Ketilhúsinu í Listagilinu á Akureyri sýning þeirra níu nemenda sem útskrifast af listnáms- og hönnunarbraut VMA fyrir jól. Sýningin verður opin til 11. desember, þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýninguna og aðrar sýningar á vegum Listasafnsins á Akureyri er á fimmtudögum kl. 12.15. Aðgangur að sýningunni í Ketilhúsinu er ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.
↧